Er sælla að gefa en þiggja?

Umræðan um þetta mál virðist helst snúast um hver eða hverjir áttu milligöngu um fjárgjafir Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins sem var í forystu ríkisstjórnar landsins á umræddum tíma. Vissulega skiptir þetta máli vegna þess að upphæðin er afar óvenjuleg og það vakna auðvitað spurningar um hvaða skuldbindingar svona fjárframlag hefur haft í för með sér.

Hitt er þó engu síður athyglivert að það var bankinn minn og margra annarra landsmanna sem veitti Sjálfstæðisflokknum þennan gífurlega fjárstuðning og við það er ég alls ekki sáttur!

Það er ekki óeðlilegt að úr því verði skorið í ljósi þess hvernig fór fyrir Landsbankanum og Sjálfstæðisflokknum hverjir báru ábyrgð á þessum fjáraustri, af hálfu bankans og Sjálfstæðisflokksins, og hvaða skuldbindingar fylgdu peningunum, af hálfu sömu aðila.

Það þarf engum að blandast hugur um að einhver ástæða liggur að baka þeim gífurlegu fjármunum sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá Landsbankanum umfram aðra flokka.

Vill einhver halda því fram að um tilviljun hafi verið að ræða eða tæknileg mistök af hálfu bankans?      


mbl.is Upplýsir ekki hverjir leituðu styrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lægst fylgi Samfylkingar í NA-kjördæmi!

Góðar fylgistölur á landsvísu og lofa góðu um kosningaúrsliti. Hins vegar spyr ég mig hvers vegna er fylgi Samfylkingarinnar svona slagt í Norðausturkjördæmi? Hefur flokknum ekki tekist að koma málefnum sínum til skila þar eða eru málefni flokksins í kjördæminu ekki áhugaverð kjósendum? Þarf forystufólk flokksins í kjördæminu ekki að skoða sinn gang ef ekki á illa að fara?

Athyglisvert er líka hversu glæsilegt fylgi VG er í kjördæminu, en það er hæst í þessu heimakjördæmi Steingríms J., formanns flokksins. Því hefur oft verið haldið fram að fylgi VG í NA-kjördæmi sé vegna persónufylgis Steingríms. Það held ég að sé ekki allur sannleikurinn og misskilningur því stefna VG í kjördæminu er skýr varðandi mikilvæg umdeild málefni, eins og álver á Bakka.


mbl.is VG upp fyrir Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússagrýlan réttlæting

Þurfa Danirnir Rússgrýlu til að réttlæta flug sitt, erum við svona vitlaus Íslendingar. Hættum að borga fyrir þessa vitleysu! Íslendingar þurfa engar loftvarnir með þessu hætti!
mbl.is Bægðu rússneskum þotum frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þjóðernisstefna sterkari atferlisvaki VG en stéttabaráttan?

Gott að heyra, en er flokkurinn að forgangsraða í þágu fólks, en ekki fjármagnsins?  

Evrópusambandsaðild er íslenskum fjármagnseigendum ekki að skapi vegna þess að slík aðild mundi kippa fótunum undan völdum og ofurtekjum íslenskra fjármagnseigenda sem hafa á undanförnum áratugum getað safnað auði í skjóli ættartengsla, einokunar einkavinavæðingar og fákeppni í íslensku efnahags- og atvinnulífi.

Í ljósi alþjóðavæðingar sem orðið hefur á undanförnum áratugum tryggir hverskyns þjóðernisstefna áframhaldandi misskiptingu tekna, réttinda og valda þessu fólki til handa. Þetta fólk hefur komist upp með það á undanförnum árum að berjast gegn frjálsari almenningi á Íslandi með rökum þjóðernisstefnunnar um skert fullveldi íslenska ríkisins.  

Fullveldisumræðan er villandi málflutningur þar sem hún snýst um ríkisvaldið ekki réttindi almennings. Þessi málflutningur er auk þess oft hugmyndafræðilega hlaðinn frösum gjaldþrota frjálshyggju og í hann vantar samfélagslega greiningu. Það er t.d. ekki spurt samtímis um hvaða hópum í þjóðfélaginu núverandi staða Íslands í samfélagi þjóðanna gagnist best né hver staða þessara hópa sé hér á landi gagnvart hver öðrum. Nánast eini fræðimaðurinn sem helgað hefur sig þessu atriði er Stefán Ólafsson prófessor við HÍ. Stjórnmálamenn hafa þagað allt of þunnu hljóði um þessar staðreyndir.  

Íslensk stéttabarátta er nákvæmlega eins og stéttabarátta annars staðar í heiminum barátta um skiptingu tekna, réttinda og valda milli ólíkra þjóðfélagshópa. Á meðan almenningur í landinu stendur utan eðlilegrar þátttöku í samfélagi evrópskra þjóða þá nýtur þjóðin ekki heldur samskonar tekjumöguleika og almenningur á Evrópusambandssvæðinu. Rauntekjur almennings á Íslandi væru miklu mun hærri og ævitekjur tryggari ef gengi krónunnar væri stöðugt og verðlag á vörum og þjónustu lægra og í samræmi við það sem best gerist erlendis. Síðast en ekki síst væru rauntekjurnar hærri ef lánakjör almennings í landinu væru með evrópskum hætti, án verðtryggingar og ofurvaxta. Efnahagshamfarir undanfarna mánuði undirstrika þetta einnig.  

Almenningur á Íslandi nýtur ekki heldur sömu borgaralegu, pólitísku og félagslegu réttinda og almenningur á Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu. Um þessa staðreynd vittna mál sem rekin hafa verið fyrir Evrópskum dómstólum og mannréttindastofnunum á liðnum misserum. Hér má einnig minna á umræðuna um lýðræðishallann á Íslandi, um ráðherraræði og skilningsleysi stjórnvalda á mikilvægi borgaralegrar óhýðni, þöggunarstefnu stjórnvalda, lykilstofnana í þjóðfélaginu og stórfyrirtækja gagnvart ábyrgð á efnahagslega hruninu.  

Loks má nefna að völd og áhrif almennings gagnvart fjármagnseigendum og stjórnvöldum er ekki sambærileg því sem best gerist erlendis. Þrátt fyrir félagafrelsi og lýðræðisyfirlýsingu íslensku stjórnarskrárinnar er verulegur lýðræðishalli í íslensku þjóðfélagi á fjölmörgum sviðum. Umræðan um nauðsynlegar lýðræðisúrbætur í landinu og nýja stjórnarskrá ber þessari staðreynd almennt vittni.  

Af ofangreindum ástæðum er andstaðan gegn bandalagi við Evrópuþjóðir fjandsamleg jafnrétti, félagshyggju og kvenfrelsi í landinu. Lýðfrjálst Ísland er einungis mögulegt í samstarfi lýðfrjálsra þjóða í Evrópu sem hafa einsett sér að vinna að eflingu réttinda almennings, jafnvel á kostnað fullveldi ríkisins. Þessi góði lýðræðisásetningur kemur fullveldishugtakinu ekki við þar sem það hugtak snýst fyrst og fremst um sjálfstæði ríkisvaldsins, ekki um aukið frelsi almennings til sjálfstæðra ákvarðana.   

Til nánari skilgreiningar á hugtökum:  

Fullveldi: Sjálfstæði, það að hafa fullt vald yfir málum sínum.  

Þjóðernisstefna: stjórnmálastefna sem leggur áherslu á sérkenni og sérstöðu þjóðar, vill varðveita þetta hvort tveggja og hamla gegn því sem erlent er.  

Stéttabarátta: (langvinn) barátta stétta, þjóðfélagsleg átök stétta (einkum um skiptingu tekna, réttindi og völd).


mbl.is VG bundin - á móti Sjálfstæðisflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjartur í Sumarhúsum á þingi og víðar?

Sjálfstætt fólk er að finna enn í dag á Alþingi og víðar í þjóðfélaginu. Það sannaði Pétur Blöndal á Alþingi í dag þegar hann svaraði Björgvin G. Sigurðssyni.

Sjálfstætt fólk Halldórs Kiljan Laxness kom út á fjórða tug síðustu aldar í miðri efnahagskreppunni sem þá lamaði Ísland og Íslendinga. 

Bendi bloggurum landsins og öðrum að kynna sér karakterinn Bjart í Sumarhúsum sér til ánægju og pólitísks yndisauka, ekki síst í tilefni af umræðunni um ESB. Ekki er óhugsandi að einhver muni skilja og skynja betur þá umræðu og þau rök sem andstæðingar ESB aðildar bjóða okkur almenningi á Íslandi í dag.

 


mbl.is Ný ríkisstjórn um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð úrslit - til hamingju Kristján!

Óska Samfylkingunni til hamingju með úrslitit prófkjörsins. Kristján er afar öflugur fyrir kjördæmið allt og hefur reynst því vel. Óska Kristjáni góðs gengis og öllum hinum sem á listanum verða.
mbl.is Kristján Möller efstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðinn er órjúfanlegur hluti lífsins - gleymum því ekki!

Sólveig Bjarnadóttir hefur rannsakað málefni sem varðar okkur öll þar sem dauðinn er órjúfanlegur hluti lífsins, þótt það hljómi þverstæðukennt.

Rannsókn Guðrúnar tekur á þessu, en þó einkum því hvernig heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustan bregst við þegar fólka leitar eftir aðstoð. Það er afar mikilvægt að í slíkum tilvikum sé tekið á málum og fólk þurfi ekki að mæta skilningsleysi eða skeytingarleysi og að upplifa að áhyggjur þess séu sniðgengnar eða virtar að vettugi.

Það þarf mikið þrek í slíkum tilvikum sem veikur einstaklingur hefur oftast af skornum skammti á því augnabliki. Því þarf að taka áhyggjur fólks alvarlega og samhæfa viðmót heilbrigðisþjónustunnar þannig að einstaklingurinn njóti athygli, virðingar og stuðnings.

Því miður er skyndibitalæknisfræði, einkum ef hún er einnig framreidd á færibandi, ófær um einmitt þetta. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki þyrfti að vera umboðsmaður sjúklinga á stærri sjúkrastofnunum landsins til að gæta velfarnaðar og hagsmuna þeirra sem þangað leita vegna slæmrar heilsu sinnar.  


mbl.is Virðing þegar dauðinn nálgast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott Ingibjörg Sólrún og Jóhanna!

Þetta eru góðar fréttir fyrir samfylkingu kvenfrelsissinna og jafnaðar- og félagshyggjufólks. Veikindi Ingibjargar eru alvarleg og það er aðdáunarvert að hún skuli vilja fórna sér í bataferli sínu fyrir stefnumið Samfylkingarinnar. Það þarf meira en vilja til að gera þetta, það skilja þeir best sem átt hafa við alvarleg veikindi að stríða.

Það þarf fórnfýsi, styrk og áræðni. Ingibjörg Sólrún hefur alla þessa eiginleika til að bera og ásamt Jóhönnu mun ætlunarverk samfylkingu kvenfrelsis, jafnaðar- og félagshyggjufólks takast, að sameina fólk til að byggja nýtt, réttlátt og betra Ísland. Óska þeim og öllum þeim sem vilja taka þátt í þessari vegferð alls velfarnaðar.    


mbl.is Ingibjörg býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglega afleiðing hroka Íslendings!

Þetta er afar sorgleg frétt af hroka eins Íslendings sem vill svo til að er fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins. Hvort skiptir meira máli skal ósagt látið, en ábyrgð þessa manns er mikil og spurningin er um ábyrgð flokksins sem bakkaði hann upp.

Mér hefur aldrei fallið framkoma Árna í fjölmiðlum. Hann hefur virkað á mig sem yfirlætið eitt. Þannig eiga fulltrúar almennings ekki að vera.  Ég verð að viðurkenna að ég hef skilning á viðbrögðum Breta ef þessi frétt er sönn.

Hversu mikils virði er samtal Árna við Darling í krónum talið á hvern Íslending ef satt er að þetta sé ástæða hryðjuverkalaganna?

Ertu borgunarmaður fyrir þessu Árni eða mun Sjálfstæðisflokkurinn greiða fyrir skaðan?  


mbl.is Hryðjuverkalög vegna samtals Árna við Darling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt Ísland!

Ég fagna þessum niðurstöðum kannana því það hefur verið draumur minn frá barnæsku að snúa af braut einstaklings- og auðhyggju. Ég tek undir orð Martein Lúther King sem sagði „Ég á mér draum“. Ég á mér draum um réttlátt samfélag án spillingar.   

Hvers vegna að gefa ekki félagshyggjunni tækifæri núna, hún hefur ekki fengið að njóta sín á undanförnum árum. Í stað þess hefur markvissum áróðri verið beitt til að sverta heiðvirt fólk sem hefur viljað berjast fyrir jöfnuði tækifæra og betra samfélags á Íslandi. Gefum slíku verkefni tækifæri, þó ekki væri nema eitt kjörtímabil núna, því það þolir enga bið!

Það er enginn að tala um 18 ára félagshyggju! Gafst þú frjálshyggjunni tækifæri síðastliðin 18 ár, ef svo er áttu tíma til að reyna eitthvað nýtt?  


mbl.is Ríkisstjórnin fengi meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband