Annað lýðveldið - áhugaverð hugmynd

Horfði á Silfur Egils í gær á Vefsjónvarpinu. Silfrið er oftast gott og var það að þessu sinni einnig. Hreifst af hugmynd Njarðar P. Njarðvík um Annað lýðveldi á Íslandi, þ.e. annað og betra lýðræði en við búum við í dag. Margir hafa reyndar bent á að lýðræðinu sé ábótavant á okkar ágæta landi og það lengi. Þá var í þættinum bent á að tækifæri okkar til breytinga væru einmitt núna og ég tek heilshugar undir það, en varast þarf allt lýðskrum og lýðskrumara.

Þá hugnast mér alþingiskosningar á þessu ári í kjölfar margra vikna upplýsts þjóðfundar um efnahagsástandið, aðdraganda þess og leiðir út úr kreppunni. Þá á ég ekki bara við þann þjóðfund sem hefur verið haldinn undanfarnar vikur og mánuði heldur álíka langan þjóðfund í aðdragandi þingkosninga kosninga. Slíkur þjóðfundur mundi gera frambjóðendum og kjósendum kleift að kryfja til mergjar stöðuna í efnahagsmálum þjóðarinnar, horfurnar og leggja drög að framtíð lands og þjóðar og þar með eigin framtíð.

Það er léleg afsökun að bera við stjórnarkreppu eða einhverju álíka sem ástæðu þess að boða ekki til alþingiskosninga á næstunni, helst í vor. Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar eru ráðnir til ráðherrastarfsins þar til kosið er og þeir verða að standa sína vakt þrátt fyrir kosningabaráttu. Þetta er gangur lýðræðisins nú sem fyrr og að halda öðru fram er rangfærsla. Þjóðfundur á vormisseri nýs árs mundi ekki trufla það ágæta fólk sem nú vinnur hörðum höndum á lægri stjórnstigum, í ráðuneytum og öðrum stjórnsýslustofnunum, við að koma þjóðarskútunni á kjölinn aftur.

Hraða þarf úttekt á ábyrgð leikstjórnenda og aðalleikenda í kreppudramanu því annars munu hinir átakanlegu atburðir undanfarinna mánaða og ára verða að varanlegri menningarmartröð þjóðarsálarinnar, eins og hver annar óupplýstur glæpur, sem að engu er hengt né af lært. Skilaboð slíkrar niðurstöðu eru hættuleg samkennd og samstöðu í nútíð og framtíð. Nýtt lýðveldi þarf að byggja á samstöðu og ábyrgð gagnvart öðrum og þeim verkefnum sem fólki eru falin í umboði almennings. Nú er lag að hverfa frá sjálfhverfu og einkavinavæðingu gærdagsins og byggja upp styrka innviði nýs samfélags sem setur sér það markmið að byggja á raunverulegu lýðræði, heiðarleika, samkennd og jöfnuði.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband