14.1.2009 | 02:15
Sultaról heilbrigðisþjónustunnar - hver ber ábyrgð?
Sú heita umræða sem nú stendur yfir um svokallaða hagræðingu í heilbrigðisþjónustunni er mjög skiljanleg. Heilsa og heilbrigði er dýrmætasta eign hvers manns og öll viljum við efla og verja þau heilbrigðisgæði sem við þekkjum best. Heilsan er auðlind sem þarf að umgangast af varúð og virðingu svo hún skili þjóðfélaginu og einstaklingnum sem mestum hagnaði. Hagfræði heilsunnar gengur út á og fjallar um atferli við öflun og ráðstöfun heilbrigðisgæða. Þetta er kjarni málsins.
Í kjölfar ákvörðunar núverandi ríkisstjórnar um sparnað og að tillögu fagráðuneytis heilbrigðismála undir verkstjórn heilbrigðisráðherra hafa verið teknar ákvarðanir sem munu hafa víðtæk áhrif á ráðstöfun heilbrigðisgæða þjóðarinnar. Vandamálið er að þjóðinni hefur ekki verið kynnt nægilega vel, jafnvel ekki neitt, hvert stefni í þessum málum? Hefur heilbrigðisstefna Guðlaugs Þórs og ráðgjafa hans verið kynnt opinberlega? Hver er heilbrigðisstefna Sjálfstæðisflokksins, hefur hún verið kynnt í aðdraganda aðgerða ráðherrans? Væntanlega hefur þessi stefna flokksins skilað honum einhverjum atkvæðum í síðustu kosningum.
Svo virðist sem enginn vilji taka almennilega ábyrgð á aðgerðunum. Vísað er til almennra hagrænna forsendna, efnahagskreppu og ... , en engin markmið sett fram um meiri gæði þjónustunnar, betri heilsugæslu, umönnun aldraðra og sjúkra, ... . Það vantar ekki fullyrðingar ráðherrans um nauðsyn ráðstafanna, en það vantar skýringar og markmið. Ráðherrann lætur stofnununum sjálfum eftir að herða sultarólina og ákveða til hvaða sparnaðarráðstafana skuli gripið, eftir að þeim hefur verið gert ljóst að þær fái ekki nægilegt fjármagn til núverandi starfsemi. Ráðstafanirnar bitna á skjólstæðingum heilbrigðisþjónustunnar - almenningi í landinu - sem veit ekki raunverulegar ástæður þeirra. Þetta er ljótur pólitískur leikur og ekki lýðræðislegur.
Hver ber ábyrgð í þessu máli? Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar sem blessar sultaról heilbrigðisráðherrans. Stjórnendur sjúkrastofnananna bera ábyrgð á þeim ráðstöfunum sem gripið er til í stofnunum þeirra. Svo einfalt er það! Hvers vegna að hengja bakara fyrir smið?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.