Von nýrra tíma – já við getum!

 Ég er þakklátur fyrir þá gæfu að fá að upplifa og innsetningu Barack Obama í forsetaembætti á morgun þriðjudaginn 20. janúar 2009. Í dag er Martin Luther King Day, frídagur í minningu King og dóttir mín á frí úr High School ásamt fjölda annarra stúdenta. Kosningabaráttan sýndi hversu mikill afburðamaður Barack Obama er. Væntingarnar eru miklar til Obama sem forseta og innsetningin á morgun þriðjudag 20. janúar verður sjónvarpað á öllum sjónvarpsstöðvum hér í Kaliforníu og um öll Bandaríkin, einnig erlendis.  Sögulegt augnablik er fyrir stafni, blökkumaður verður í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna settur í embætti forseta. Reyndar er móðir Barack Obama hvít á hörund en faðir hans er frá Nígeríu. Ég er hamingjusamur fyrir hönd bandarísku þjóðarinnar vegna þess að þessa andartaks hefur verið beðið í áratugi. Jafnréttisbarátta bandarískra blökkumanna hefur varað um langan tíma en núna loksins er að rofa til. Tímamót eru augljóslega þar sem húðlitur hefur litað viðhorf bandaríkjamanna fram að þessu og mismunað fjölda manns. Frændi minn í Skagafirði sagði mér aðspurður að þrátt fyrir að fjárstofn hans væri af ólíkum litbrigðum hefði hann aldrei tekið eftir neinum öðrum mun á fjárstofni sínum en litarhættinum. Lambakjötið var nákvæmlega eins á bragðið hvernig svo sem gæran var á litin. Þetta kemur mér ekki á óvart því litarháttur er ekki líffræðilega aðgreinandi þáttur. Mannkostir erfast hins vegar félagslega, þ.e. uppeldið markar manninn, viðhorf hans og reynslu, ekki litarhátturinn. Fordómar eru hluti af arfleifð foreldranna og samfélagsins eins og guðrækni og mannasiðir. Viðhorf fortíðar eru sterk og hafa ennþá áhrif á fólk hér eins og heima á Fróni.  Þess er skamms að minnast að í næsta bæ við Berkeley, þar sem fjölskylda mín dvelur um þessar mundir, var rúmlega tvítugur þeldökkur ungur faðir tekinn af lífi á aðfangadag jóla af hvítum lögreglumanni. Maðurinn ungi var skotinn í bakið liggjandi handjárnaður á lestarstöð í Oakland í nærveru annarra lögreglumanna. Engin ástæða virðist fyrir morðinu önnur en kynþáttaviðhorf lögreglumannsins. Svo heppilega vildi til að atvikið náðist á vídeomyndavél farsíma viðstadds borgara. Það er hryllilegt til þess að hugsa að hefði atvikið ekki verið myndað þá hefði viðkomandi lögreglumaður ekki verið ákærður. Það liðu þó margir dagar uns viðkomandi lögregluyfirvöld tóku loks ákvörðun um að lögsækja lögreglumanninn eftir að saksóknari Kaliforníuríkis hafði tekið málið í sínar hendur. Spilling er víðar en á Íslandi og af þessu atviki má læra. Áður en að því kom höfðu borgarar Oakland borgar mótmælt kröftuglega þeim órétti sem beitt var. Svona er huglægt gildismat og menningarleg viðhorfi sterk þó þau styðjist ekki við neinar staðreyndir.  Obama er að mínu mati frábær fulltrúi nýrrar kynslóðar Bandaríkjamanna sem þráð hafa breytingar og nýja tíma. Ég óska öllum Bandaríkjamönnum til hamingju með nýjan forseta og vona að hann verði fyrirmynd frekari þjóðfélagsbreytinga og framfara í heiminum á komandi árum, einnig á Íslandi.

 


mbl.is Obama minntist King
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband