6.2.2009 | 05:38
Hversu langt lýðræðisbylting?
Það er bjargföst vissa og trú mín að lýðræðinu verður ekki þokað til nútímahorfs ef lýðræðisbyltingin nær ekki líka til sveitastjórna eins og ríkisstjórna. Lýðræðishugmyndin þarf að verða að jafn sjálfsögðum hlut í samskiptum einstaklinga og stjórnvalda og einstaklinga sín á milli og að sólin kemur upp að morgni og hnígur til viðar að kveldi. Jörðin er ekki flöt en stundum mætti ætla að lýðræði sé flatneskjan ein.
Lýðræði snýst um viðhorf til annarra manna og mannréttinda. Lýðræði snýst um möguleika almennings - lýðsins - að hafa áhrif á það þjóðfélag sem það lifir í. Lýðræði snýst um að geta sagt skoðanir sínar án ótta við refsingu stjórnvalda eða hverskyns útskúfun úr samfélagi manna. Lýðræði er spurning um viðhorf til réttar náungans og almennings og virðingu eins gagnvart skoðunum annarrs. Lýðræði snýst um að við hlustum á hvert annað, að stjórnvöld hlusti og taki mark á skoðunum samborgaranna og að tryggt sé í lögum að það sé einmitt gert.
Lýðræði er spurning um uppeldisleg viðhorf og grunngildi mannlegra samskipt og því verður Lýðræði ekki komið á og því fyllilega við haldið nema nærsamfélagið, fjölskyldan og sveitarfélagið, virði það og meti einhvers og setji sér það markmið að vinna í lýðræðislegum anda. Þess vegna hvet ég alla lýðræðislega byltingarsinna að snúa sér einnig að sveitastjórnarstiginu í baráttu sinni og gagnrýni á það sem betur mætti fara í þessu tilliti og lofi það sem er til fyrirmyndar lýðræðinu.
Þannig verður hugmynd lýðræðisins best fram komið og best stuðlað að þeirri menningarbyltingu sem er í gangi á Íslandi í dag. Já, við getum, ef við viljum og tökum höndum saman. Lifi bylting hugarfars og stjórnsýslu í þágu lýðræðis í landinu!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.