2.2.2009 | 02:39
Til hamingju með nýja viðreysnarstjórn!
Full ástæða er til að fagna nýrri ríkisstjórn, þrátt fyrir að hún eigi ekki, að sinni a.m.k., langa lífdaga í vændum. Verkefni hinnar nýju stjórnar eru mörg og brýn. Meginmarkmiðið er þó sem fyrr að reisa við efnahag landsins. Það er mikill léttir að losna við Sjálfstæðisflokkinn út úr stjórnarráðinu og halda þarf áfram að taka til eftir langa stjórnarsetu þess flokks og Framsóknar. Og vonandi eigum við ekki eftir að sjá þann flokk frekar en Framsóknarflokkinn koma að hreinsunarstarfinu næstu árin en það er samt þakkarvert að Framsókn hyggst verja stjórnina falli í 80 daga og ekki óeðlilegt að sá flokkur setji einhver skilyrði fyrir aðkomu sinni. Það má hins vegar alltaf deila um hversu sanngjörn þau eru. Þar sem ákveðið hefur verið hvenær næstu kosningar skuli fara fram er kosningabaráttan hafin og allt sem fulltrúar flokkana segja á næstu vikum þarf að skoða vel í því ljósi. Það er von mín og trú að kjósendur muni velja núverandi stjórnarflokka áfram til að leiða þjóðina í öruggt skjól Evrópskrar samvinnu og samstarfs á efnahagssviðinu. Það þarf að vísu hugarfarsbreytingu til hjá öðrum flokknum, en hún er ekki ómöguleg og við sem viljum róttækar þjóðfélagsbreytingar ættum að taka Obama nýkjörinn forseta Bandaríkjanna okkur til fyrirmyndar þegar hann segir - já við getum!
Slá skjaldborg um heimilin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.