12.2.2009 | 03:47
Kreppan í Kaliforníu og hér heima
Í gær fórum við hjónin í klukkutíma gönguferð eftir sjöttu götu í Berkeley. Þetta var upp úr hádegi. Við tókum eftir því þegar kom að University Avenue að þar voru margir ungir suður Amerískir karlmenn á götuhornum og ræddu greinilega saman. Kona mín taldi að þessir ungu menn væru að láta á sér bera ef svo vildi til að einhverjum vantaði hantak og vildi ráða þessa greinilega atvinnulausu menn í vinnu. Ég taldi að þessir ungu menn væru þarna af menningarlegum ástæðum einnig þar sem menningarleg gildi hvetja jafnvel atvinnulaust fólk til félagslegrar samnveru.
Í dag fórum við svo aftur sömu leið. Við vorum örlítið seinna á ferðinni en í gær og viti menn á nákvæmlega sömu götuhornum voru ungir menn samankomnir og nú í nærveru nunna, í fullum skrúða, sem voru að útdeila matarpökkum. Þannig er atvinnuleysið í kjölfar kreppunnar hér, ungir karlar eiga ekki fyrir mat og spurningin er hvort fjölskyldur þeirra séu enn verr staddar.
Okkur varð hugsað til velferðarkerfisins heima á Fróni og þar er að minnast þeirra sem hafa viljað veikja það og jafnvel telja að það sé óþarft. Einn vinur minn hér úti tjáði mér um daginn að ameríski draumurinn hefði breyst í martröð í forsetatíð Bush. Barack Obama bandaríkjaforseti hefur einmitt lofað að reyna að bæta velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og skólakerfið. Vona að honum takist ætlunarverk sitt, hann hefur alla vega traust og stuðning þjóðarinnar til þess.
Óþarft er að nefna að Bandaríkin eru forystuþjóð í samfélagi þjóðanna, en á hvaða sviði kann að virðast óljóst nú um stundir. Hitt er víst að við Íslendingar erum forystuþjóð á sviði velferðar og getum vonandi enn verið öðrum þjóðum fyrirmynd þrátt fyrir allt, eða hvað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.