25.2.2009 | 05:58
Davíð, Sigmar og Frúin í Hamborg!
Það var gaman að fylgjast með leiksnilld Davíðs í Frúnni í Hamborg í Kastljósinu. Sigmari tókst aldrei að fá Davíð til að segja Já allan tímann og Nei sagði Davíð ekki heldur þar sem hann samdi spurningarnar bara sjálfur og svaraði þeim út í hött eins og góðum stjórnmálamanni af gamla skólanum lætur svo vel. Eftir sitja áhorfendur ennþá meira undrandi á þessari endalausu veruleikafirringu sem einkennir Jarlinn af seðló.
Það var hrein snilld hjá Davíð að koma sök á andlitslausan sjálfstæðisflokkinn á aðgerðaleysi í aðdraganda kerfishrunsins og í kjölfar þess án þess að á hann mætti minnast né um spyrja. Var traust forsetisráðherra og fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins svo lítið til Davíðs að þeir hlustuðu ekki á aðvaranir hans? Hvers vegna hlustaði enginn á varnaðarorð Davíð, var hann þá þegar fyrir þremur árum rúinn öllu trausti alls staðar?
Er Davíð einungis fórnarlamb allra hér á jörð nema þeirra ónafngreindu sem hringja án afláts í hann til að kvarta yfir óréttlæti ólígarkanna hver gegn öðrum? Ekki á ég von á að hver sem er fái samtal við aðalseðlabankastjóra svona án verulegrar atrennu! Frúin í Hamborg getur verið skemmtileg þegar úrslit leiksins varða ekki alla þjóðina, en það var ekki tilfellið í kvöld.
Davíð í Kastljósviðtali | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.