Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sameinum krafta okkar!

Fjölmargir hafa lagt því sjónarmiði lið að bregðast þurfi við áhrifum kreppunnar með ákveðnum hætti. Ég vil leggja til að fólk sameinist í þessari viðleitni þvert á flokksaðild og ræði málin sín á milli án aðkomu núverandi stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka. Ég er þó ekki að mæla fyrir nýjum flokki eða flokkum heldur vil ég stuðla að því að fólk nái saman um það sem gera þarf til að ná árangri í kjölfar efnahagskreppunnar og leggja grunn að endurreisn. Við þurfum að byggja brýr og ná árangri með samræðum um lausnir. Sameinuð stöndum við sundruð föllum við segir máltækið og það eru orð að sönnu.  

Tíminn læknar ekki öll sár - sum sár gróa ekki!

Ég sit hér úti  í Kaliforníu og fylgist með atburðum heima á Íslandi, en það hvarflar ekki að mér eitt andartak að mótmæli almennings séu tilefnislaus. Það er mikilvægt að stjórnmálamenn átti sig á því sem er að gerast. Almenningur - þjóðin, hvernig sem hún er skilgreind - er búin að fá sig fullsadda af framtaks og stjórnleysi stjórnvalda. Ég er stofnaðili að Samfylkingu kvenfrelsis, jafnaðar-og félagshyggjufólks og mér ofbýður það aðgerðaleysi sem viðgengst ennþá þremur mánuðum eftir kerfishrunið. Hvers vegna hefur stjórn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits ekki verið skipt út? Hvers vegna hefur erlendum óháðum aðilum ekki verið falið stærra hlutverk í rannsókn á starfsemi bankanna og stjórn þeirra? Hvað hindrar stjórnvöld í að leggja verk sín í dóm þjóðarinnar í nýjum kosningum? Eru kjósendur fífl sem þarf að hafa vit fyrir af ofurgreindum fulltrúum ríkisstjórnarinnar? Hvers vegna er litið á mótmælendur sem lýð sem ekki sé ástæða til að taka mark á né ræða við? Hvað er að í íslensku þjóðfélagi? Hver vill svara þessum fátæklegu og heimskulegu spurningum manns í útlöndum sem ber hag íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti? Ef ríkisstjórnin velur þöggunarstefnu í þessu máli hvet ég alla sem vettlingi geta valdið til að mótmæla hástöfum, ef stjórnvöld bregðast við og bjóða til viðræðna eða segja af sér hvet ég fólk til að leita samstöðu um farsæla lausn mál.


Situr Geir í skjóli Davíðs?

Það er undarlegt að Geir leysi ekki upp ríkisstjórn sína og boðað verði til kosninga í ljósi efnahagsástandsins í landinu og vafasams umboðs stjórnarflokkanna nú um stundir. Eina skýringin sem mér kemur í hug og er líkleg er að Geir sitji í skjóli Davíðs sem hefur á honum hreðjatak frá fyrri tíð. Ný stjórn án Sjálfstæðisflokksins mundi að sjálfsögðu losa sig við Davið.  

Að sameina í stað þess að sundra!

Ég hef átt þess kost að fylgjast náið með kosningabaráttu Barack Obama og innsetningu hans á heimaplani í dag 20. janúar 2008. Miklar vonir eru bundnar við Obama og það er ekki undarlegt í ljósi þess að fyrrverandi forseta Bush hefur gersamlega misheppnast og alls ekki staðið sig í embætti. Áhersla Obama á að sætta og sameina ólíka krafta til góðra verka er allt annar tónn en stefna Bush á erlendri grund fól í sér, að deila og drottna. Obama hefur sagt að það sé ekki skynsamlegt að draga sig út úr samskiptum við andstæðinga sína og einangra bæði sig og andstæðingana, slíkt leiðir ekki til árangurs. Í stað þess er mikilvægt að tala saman og reyna að ná ásættanlegri niðurstöðu í hverju máli. Ég er sammála Obama og óska honum alls hins besta í þessari viðleitni og vona að hann muni ná góðum árangri á alþjóða vettvangi á komandi árum. Minn draumur er og hefur verið lengi að sameina krafta jafnaðarmanna í öllum flokkum til að ná markmiðum sínum. Ef til vill má ýmislegt læra af Bandaríkjamönnum í þessu efni.  
mbl.is Obama kemur í Hvíta húsið sem forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkinn burt úr ríkisstjórninni!

Ég hef lýst því yfir hér á mbl-Blogginu að núverandi ríkisstjórn þurfi að endurnýja umboð sitt vegna atburða undanfarinna vikna og mánaða. Ef þjóðin á að geta öðlast sjálfsvirðingu og virðingu annarra þjóða þá þurfum við að losna við þann flokk úr ríkisstjórn sem ber mesta ábyrgð á núverandi ástandi, þ.e. Sjálfstæðisflokkinn. Stjórnin þarf að segja af sér og boða þarf til kosninga hið allra fyrsta.


mbl.is Samstöðumótmæli á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Von nýrra tíma – já við getum!

 Ég er þakklátur fyrir þá gæfu að fá að upplifa og innsetningu Barack Obama í forsetaembætti á morgun þriðjudaginn 20. janúar 2009. Í dag er Martin Luther King Day, frídagur í minningu King og dóttir mín á frí úr High School ásamt fjölda annarra stúdenta. Kosningabaráttan sýndi hversu mikill afburðamaður Barack Obama er. Væntingarnar eru miklar til Obama sem forseta og innsetningin á morgun þriðjudag 20. janúar verður sjónvarpað á öllum sjónvarpsstöðvum hér í Kaliforníu og um öll Bandaríkin, einnig erlendis.  Sögulegt augnablik er fyrir stafni, blökkumaður verður í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna settur í embætti forseta. Reyndar er móðir Barack Obama hvít á hörund en faðir hans er frá Nígeríu. Ég er hamingjusamur fyrir hönd bandarísku þjóðarinnar vegna þess að þessa andartaks hefur verið beðið í áratugi. Jafnréttisbarátta bandarískra blökkumanna hefur varað um langan tíma en núna loksins er að rofa til. Tímamót eru augljóslega þar sem húðlitur hefur litað viðhorf bandaríkjamanna fram að þessu og mismunað fjölda manns. Frændi minn í Skagafirði sagði mér aðspurður að þrátt fyrir að fjárstofn hans væri af ólíkum litbrigðum hefði hann aldrei tekið eftir neinum öðrum mun á fjárstofni sínum en litarhættinum. Lambakjötið var nákvæmlega eins á bragðið hvernig svo sem gæran var á litin. Þetta kemur mér ekki á óvart því litarháttur er ekki líffræðilega aðgreinandi þáttur. Mannkostir erfast hins vegar félagslega, þ.e. uppeldið markar manninn, viðhorf hans og reynslu, ekki litarhátturinn. Fordómar eru hluti af arfleifð foreldranna og samfélagsins eins og guðrækni og mannasiðir. Viðhorf fortíðar eru sterk og hafa ennþá áhrif á fólk hér eins og heima á Fróni.  Þess er skamms að minnast að í næsta bæ við Berkeley, þar sem fjölskylda mín dvelur um þessar mundir, var rúmlega tvítugur þeldökkur ungur faðir tekinn af lífi á aðfangadag jóla af hvítum lögreglumanni. Maðurinn ungi var skotinn í bakið liggjandi handjárnaður á lestarstöð í Oakland í nærveru annarra lögreglumanna. Engin ástæða virðist fyrir morðinu önnur en kynþáttaviðhorf lögreglumannsins. Svo heppilega vildi til að atvikið náðist á vídeomyndavél farsíma viðstadds borgara. Það er hryllilegt til þess að hugsa að hefði atvikið ekki verið myndað þá hefði viðkomandi lögreglumaður ekki verið ákærður. Það liðu þó margir dagar uns viðkomandi lögregluyfirvöld tóku loks ákvörðun um að lögsækja lögreglumanninn eftir að saksóknari Kaliforníuríkis hafði tekið málið í sínar hendur. Spilling er víðar en á Íslandi og af þessu atviki má læra. Áður en að því kom höfðu borgarar Oakland borgar mótmælt kröftuglega þeim órétti sem beitt var. Svona er huglægt gildismat og menningarleg viðhorfi sterk þó þau styðjist ekki við neinar staðreyndir.  Obama er að mínu mati frábær fulltrúi nýrrar kynslóðar Bandaríkjamanna sem þráð hafa breytingar og nýja tíma. Ég óska öllum Bandaríkjamönnum til hamingju með nýjan forseta og vona að hann verði fyrirmynd frekari þjóðfélagsbreytinga og framfara í heiminum á komandi árum, einnig á Íslandi.

 


mbl.is Obama minntist King
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðamannaiðnaður á Norðurlandi

Þetta eru afar góðar fréttir. Ég hef lengi haldið því fram að ferðamannaiðnaðinn þurfi að efla enn frekar. Hann skilar okkur Íslendingum atvinnu og gjaldeyri. Mörg byggðarlög landsins hafa vannýttar ferðamanna-auðlindir sem þau ættu að virkja nú þegar. Taki byggðalög sig saman um raunhæfa uppbyggingu þessa iðnaðar yrðu álver og önnur atvinnutækifæri fortíðarinnar allsendis óþarfa umræðuefni. Svo tekið sé einungis mið af byggðarlögum Norðurlands þá gætu þau með samstilltu átaki og samstarfi um uppbyggingu utanlands flugsamgangna og ferða- og flutningsþjónustu á Norðurlandi eflt til muna atvinnustigið þar og aflað gjaldeyris.  
mbl.is Ísland eitt það heitasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bein áhrif kreppunnar á heilbrigði hér á landi

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mætti taka sterkar til orða og ljóst er að starfsmenn hennar hafa ekki í huga íslenskar aðstæður þegar þeir tala um að fjármálakreppan „geti“ haft áhrif á heilsuna. Hér á landi er skýrasta dæmið um þessi áhrif aðgerðir heilbrigðisráðherra í heilbrigðismálum.
mbl.is Kreppan gæti haft slæm áhrif á heilsuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdi fylgir ábyrgð ráðherra!

Valdið er hjá ráðherra, en hvar er ábyrgðin? Ætlar þú Einar að taka hana eða vísa á einhvern annan? Spurningin er ekki tilefnislaus eða hvað ....?
mbl.is Valdið er hjá ráðherranum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkurinn framar öllu!

Hvers vegna ætti að bjarga flokki? Vegna stefnu hans eða vegna hans sjálfs? Er það sem haft er eftir Siv ekki skýrt dæmi um heltekningu flokksræðisins?
mbl.is Flokknum bjargað, segir Siv
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband